Vaskar og helluborð - undirlímt, sléttfellt og undirlímt

Þegar til stendur að prýða eldhúsið með Primastone Quartz borðplötu gefur augaleið að huga þarf sérstaklega vel að vöskum og eldhústækjum, svo allt taki sig sem best út.

Vaskar:

Ef við lítum fyrst á vaskana, þá eru þrjár mismunandi leiðir til að festa þá í og við borðplötuna.

Undirlímdur vaskur:

Líkt og nafnið gefur til kynna er vaskurinn límdur við undirhlið borðplötunnar. Sagað er gat í borðplötuna og innri brún gatsins pússuð vel. Vaskurinn er svo límdur undir borðið með sterku sílikoni. Til að tryggja vatnsheldni, þá er borðbrúnin látin ná 3 mm inn fyrir vaskinn. Þegar vaskar eru undirlímdir þarf sérstaklega að passa það að vaskurinn sé vel límdur, þar sem vaskur fullur af leirtaui getur hæglega orðið mjög þungur. Primastone plöturnar koma með sérstökum nælontöppum sem límdar eru inn í plöturnar svo auðveldara sé að festa vaskana betur á einfaldan hátt. Kostirnir við undirlímda vaska eru fallegt og smekklegt útlit og einfalt er að þrífa vaskinn. Á móti kemur getur reynst erfitt að skipta um vask og þurfa mjög nákvæm mál að vera til staðar. Eins þarf að festa vaskinn mjög vel svo hann losni ekki frá borðplötunni og valdi leka.

Yfirfelldur vaskur:

Þegar vaskar eru yfirfelldir er sagað gat í borðplötuna og vaskurinn settur ofan í. Þannig hangir hann á vaskbrúninni, sem einnig er límd við borðplötuna með sílíkoni til að tryggja vatnsheldni. Hér áður fyrr var einn helsti galli yfirfelldra vaska sá að sílíkonið var mjög sýnilegt en núorðið eru fáanlegir fjöldi fallegra vaska taka sig mun betur út með þessum hætti. Þessi aðferð er öllu einfaldari en undirlímingin og ekki er flókið að skipta um vask ef til þess kemur. Aftur á móti á sílíkonið til að eldast og losna og eins geta óhreinindi safnast undir vaskbrúnina sem erfitt getur reynst að þrífa.

Sléttfelldur vaskur:

Sléttfelldir vaskar eru sjaldséðari en hinar aðferðirnar, en þar eru vaskarnir festir á sama hátt og yfirfelldir, nema að fræst er aðeins úr borðplötunni þar sem vaskabrúnin liggur svo kantur vasksins falli fullkomlega að borðplötunni. Þetta er vissulega flóknara í framkvæmd og gerir það erfiðara að skipta um vask, en fyrir vikið eru mót borðplötu og vasks rennislétt og falleg. Að sama skapi kemur þessi aðferð í veg fyrir óhreinindasöfnun undir vaskbrúninni, svo þrif eru mun auðveldari.

Helluborð

Þegar horft er til helluborða og annarra slíkra eldhústækja liggur munurinn helst í því að líftími þeirra er gjarnan styttri en góðra vaska og því ekki útilokað að skipta þurfi um helluborð á einhverjum tímpaunkti.

Yfirfellt helluborð:

Þegar helluborð eru yfirfelld er sagað gat í borðplötuna og helluborðið lagt ofan í svo það hangi á brúnunum, en þær eru svo einnig gjarnan festar við borðplötuna með sílíkoni. Þetta er vel þekkt og afar algeng aðferð og hefur hún þá kosti að auðvelt er að skipta um helluborð síðar meir. En sökum þess að brún helluborðsins hvílir ofan á borðplötunni geta óhreinindi hæglega safnast þar undir sem erfitt getur reynst að þrífa vel.

Sléttfellt helluborð:

Hér eru helluborðin fest á sambærilegan hátt og þau yfirfelldu, nema að fræst er aðeins úr  borðplötunni þar sem brún helluborðsins liggur svo yfirborð helluborðsins falli fullkomlega að borðplötunni. Með þessari afar smekklegu aðferð myndast ekkert pláss fyrir óhreinindi að safnast saman svo þrif eru leikur einn. Aftur á móti er afar erfitt að skipta um helluborð.