Uppsetning á Primastone quartz borðplötum

Hvernig setur maður upp quartz borðplötur?

Að setja upp quartz borðplötur getur verið mikið verk en fyrir handlaginn einstakling er það eins og að drekka vatn! Ef allt gengur að óskum gætu plöturnar verið komnar upp á 3-4 tímum.

Hér fyrir neðan förum við yfir helstu skrefin og atriðin sem hafa þarf í huga.

Nauðsynleg tæki og tól:

  • Málband

  • Dúkahnífur

  • Hallamál (því lengra, því betra)
  • Blýantur
  • Málningarlímband
  • Bor, skrúfur og bitar til að styrkja undirstöður undir plöturnar ef þörf er á.
  • Öryggistæki: Hanskar, hlífðargleraugu og stáltárskór.
  • Plaststrimlar í mismunandi þykktum (0,5 mm, 1 mm, 2 mm og 3 mm) til að stilla af borðplöturnar.
  • 50 ml epoxy lím
  • Glært sílikonlímkítti til að líma borðplöturnar og festa vaska (ef við á)
  • Boltar og annað til þess að festa vaska (eins og leiðbeint er á viðkomandi vaski)
  • Kítti (glært eða í viðeigandi lit) til að ganga frá brúnum og köntum.

Áður en borðplötur eru settar upp:

  • Plöturnar eru mjög þungar. Þriggja metra borðplata þarf að minnsta kosti þrjá einstaklinga svo hægt sé að lyfta plötunum og færa þær til. Fyrir enn stærri plötur (t.d. fyrir eldhúseyjur) gæti þurft enn fleiri aðila til aðstoðar.
  • Gættu þess að borðplöturnar hafi nógu sterkar og nógu margar undirstöður. Ef skáparnir ná ekki alveg út að vegg eða ef platan liggur yfir stórum heimilistækjum gæti þurft að setja viðarbita undir hana.
  • Plöturnar eru þungar og það gæti verið hægara sagt en gert að hreyfa þær. Best er að taka hurðir og annað slíkt af öllum skápum til að tryggja að ekkert skemmist.
  • Til að geta verið viss um að borðplöturnar passi rétt er gott að leggja þær ofan á innréttinguna fyrst (án líms, að sjálfsögðu).
  • Gott er einnig að setja vask og eldavél á sinn stað svo hægt sé að sjá hvort nægt pláss sé undir plötunni eða hvort saga þurfi úr skápum. Gæta þarf þess pláss sé fyrir lagnir. Ef saga þurfti úr skápum er gott að máta plöturnar aftur.
  • Fyrir mjög þunga undirlímda vaska þarf að tryggja að nægar undirstöður séu til staðar. Hér er best að fylgja leiðbeiningum frá framleiðanda.
  • Fyrir mjög þunga undirlímda vaska þarf að tryggja að nægar undirstöður séu til staðar. Hér er best að fylgja leiðbeiningum frá framleiðanda. 

Að stilla borðplöturnar af:

  • Notaðu hallamálið til að passa að plöturnar séu fullkomlega láréttar. Mæla skal bæði hverja plötu fyrir sig og þvert yfir samskeyti ef við á. 
  • Ef laga þarf hallann getur þú notað stillanlega fætur á innréttingunum eða plaststrimla til þess að setja á milli skápa og plötunnar.. Best er að stilla skápa af fyrst og síðan plöturnar.
  • Passaðu sérstaklega að plöturnar beggja vegna samskeytanna séu í nákvæmlega sömu hæð. Þetta er hægt að athuga með því t.d. að strjúka yfir samskeytin með dúkahnífsblaði.
  • Stilltu plöturnar af svo þær nái alls staðar jafnlangt fram yfir skápsbrúnir (30-50 mm), þ.e. að kanturinn sé eins á öllum hliðum.

Að setja upp vaska, helluborð og blöndunartæki:

  • Hér er best að fylgja leiðbeiningum um uppsetningu frá framleiðendum tækjanna.
  • Oft er gott að setja upp blöndunartækin á undan vaskinum til að hafa meira pláss.
  • Ef vaskur er undirlímdur þá er skorna gatið í plötunni yfirleitt ca 10 mm minna en innanmál vasksins. Þetta tryggir að samskeytin sjáist ekki og minnkar hættu á leka.
Að líma saman samskeyti:
  • Settu málningarlímband báðum megin við samskeytin (líka framan á plötunni.
  • Límdu plöturnar saman með tveggja þátta epoxy lími (eða sílíkonkítti). Notaðu glært lím eða lím af svipuðum lit. Einnig er hægt að bjarga sér með því að blanda litarefni út í epoxy límið.
  • Fjarlægðu límbandið og notaðu dúkahníf til að fjarlægja allt aukalím.

Að líma niður borðplöturnar:

  • Notaðu glært sílíkon til að festa saman undirskápana og plöturnar. Reyndu að setja sílíkons alls staðar þar sem þú nærð til, svo festingin verði sem best.

Gangi þér vel!